Léttir réttir

Hér er að finna glænýja seríu af Snarlinu. Að þessu sinni eru það krakkar á aldrinum 8-11 ára sem sýna okkur hvernig þeir sem eru að taka sín fyrstu skref í eldhúsinu geta útbúið einfalda og fljótlega rétti, hvort sem það er eftir skóla eða í kvöldmatinn.

Þau Matti, Móey, Áslaug, Alexandra, Karl og Baldvin kunna sko aldeilis að galdra fram góða og létta rétti.

Þriggja hæða samloka

samlokubrauð
2 msk sætt sinnep
1 dós sýrður rjómi
kjúklingaálegg
skinka
salami
ostur
paprika
tómatar
gúrkur

Í þessari uppskrift erum við ekki með neinar mælieiningar – svona þannig nema bara í sinnepsdressingunni en þá setjum við tvær matskeiðar af sinnepi út í eina dós af sýrðum rjóma. Annars er þetta einfalt. Þið raðið álegginu á eins og þið viljið og borðið svo með bestu lyst. Munið að þið getið sett það sem þið viljið á milli og eruð alls ekki bundin af því sem var gert í myndbandinu. Athugið að það er eiginlega algjört lykilatriði að rista brauðið fyrst.

Kjötbollur

600 g nautahakk
1 krukka tómatbasil sósa
1 bréf taco krydd
1 egg
100 g rifinn ostur
Ostur – skorinn í teninga til að setja inn í bollurnar
100 g nachos flögur
matarolía

Hnoðið eggið og taco kryddið saman við nautahakkið. Passið að hendurnar séu hreinar og mótið síðan bollur. Inn í hverja bollu skuluð þið setja lítinn ostbita. Hann bráðnar þegar kjötbollan eldast og bollan verður helmingi betri.
Smyrjið eldfast mót og raðið bollunum í mótið. Setjið tómatbasil sósuna yfir og loks rifinn ost.
Bakið við 200 gráður í 17 mínútur.
Berið fram með nachos flögum.

Hrærð egg

4 egg
2 msk rjómi
smjörklípa
ristað brauð

Þessi uppskrift er einföld. Það eina sem þið þurfið að gera er að kveikja undir pönnunni (ekki of hár hiti – bara miðlungs), setja smjör á pönnuna, brjóta tvö egg í skál, setja 2 msk. af rjóma saman við og píska saman.
Hellið svo á pönnuna og hrærið í með trésleif þangað til eggin eru orðin vel hrærð og fín.
Berið fram með ristuðu brauði.

Bökuð bleikja

2 bleikjuflök
1 brokkólíhaus
10 kirsuberjatómatar
1 appelsína
2 msk hunang
2 msk soya sósa
salt og pipar
matarolía
kóríander

Byrjið á að skera niður brokkólíið og tómatana. Raðið grænmetinu í eldfast mót. Hellið smá olíu yfir og saltið og piprið. Setjið bleikjuflökin yfir grænmetið.
Því næst hellið þið soya sósunni yfir og rífið appelsínubörk yfir. Skerið svo appelsínuna í tvennt og kreistið safa yfir fiskinn. Að lokum hellið þið hunanginu yfir bleikjuflökin.
Bakið í ofni í 12 mínútur á 180 gráðum.
Ef þið viljið skreyta réttinn þá má setja smá kóríander yfir eins og sést í myndbandinu.

Jarðaberjabúst

1 lítil dós vanilluskyr
6-8 jarðarber
50 ml mjólk

Setjið öll hráefnin saman í blandara og blandið vel saman. Þið getið ráðið því hversu þykkt bústið verður með því að setja meira eða minna af mjólk. Hægt er að nota hvaða ávexti sem er í staðinn fyrir jarðarberin og prófa sig áfram með annars konar skyr. Þarf alls ekki að vera vanilluskyr.

Pítsa

tilbúið pítsudeig
pítsusósa
pepperóní
rifinn ostur

Byrjið á að fletja pítsudeigið út og setjið hveiti á það til að það sé ekki klístrað.
Setjið smjörpappír á ofnplötu og skellið deiginu á plötuna.
Setjið síðan pítsusósu á deigið, því næst áleggið og loks ostinn.
Bakið í ofni á 180 gráðum í 12-15 mínútur.
Í myndbandinu var notað tilbúið pítsudeig og tilbúin pítsusósa en ef þið eruð tilbúin að flækja eldamennskuna ögn þá að sjálfsögðu gerið þið ykkar eigin pítsudeig og sósu.