Taktu Snarlið með þér

Hér er að finna splúnkuný Snarl myndbönd og er þemað í þetta skipti göturéttir (“street food”). Ebba sýnir hvernig á að útbúa sniðuga og holla rétti til að taka með sér í skólann, á æfingu, í útilegu eða í lautartúr. Einnig gefur hún góð ráð um hvernig sporna má við matarsóun og plastsóun.

  

Rautt pestó

1 krukka rautt pestó

10 svartar ólífur
smátt skornar

10 döðlur 
smátt skornar

2 msk kasjúhnetur
(má sleppa)

2 msk fetaostur
(má sleppa & má setja meira ef vill)

1-2 msk Steinselja fersk
smátt söxuð (má sleppa)

Blanda saman og borða ofan á kex eða brauð … Hræðilega gott.

Geymið í hreinni glerkrukku með loki (ef það klárast ekki strax það er að segja).

  

Karamellukaka

250 g döðlur + 1 dl vatn

100g smjör

1/2 tsk kanill

1 tsk vanilluduft eða dropar + ½ tsk sjávarsalt

20 dropar vanillu- eða karamellustevía (eða 1 msk kókospálmasykur) – bæði val

2 egg

50 g hrísgrjónamjöl, möndlumjöl eða fínt spelt  

2 tsk vínsteinslyftiduft

Hitið ofninn í 180°C. Leggið döðlurnar og 1 dl af vatni í pott ásamt smjöri og sjóðið rólega í um 1 mínútu. Bætið kanil, vanillu, salti og stevíu saman við. Maukið svo vel saman. Ég nota töfrasprota og mauka þetta ofan í pottinum. Setjið egg í aðra skál og pískið saman. Bætið döðlublöndunni saman við, sem og mjöli og lyftidufti. Setjið deigið í 24cm smelluform (ég set yfirleitt smjörpappír í formið fyrst). Bakið í um 28-30 mínútur.

Heit karamellusósa

3 msk kókospálmasykur eða hrásykur

2 msk hlynsýróp

20 dropar karamellustevía (eða ein matskeið í viðbót af hlynsýrópi eða kókospálmasykri)

80g smjör

100 ml rjómi

Hitið öll hráefnin í potti þar til karamellan fer að sjóða. Látið sjóða við vægan hita í um 4-5 mínútur, kælið og hellið yfir kökuna. Ekki fara frá karamellunni á meðan hún sýður.

  

Taco (fyrir 4-5)

500g Nautahakk

1 laukur
skorinn

2 msk ólífuolía

ítalskt panini krydd OG sterkt paprikukrydd
(mjög mikið af hvorutveggja)

Sjávarsalt eftir smekk

Steikja allt saman við meðalhita. Þegar þið eruð búin að steikja í svolitla stund er gott að lækka hitann í 2-3, setja lokið á og láta bíða í um 3-4 mínútur og þá steikist hakkið í gegn.

Mér finnst best að setja nautahakkið í skeljarnar, mozzarella rifinn yfir og hita svo skeiljarnar undir grilli, þangað til osturinn er bráðinn. Svo getur hver og einn bætt í sína skel því sem honum finnst gott:

Meðlæti, dæmi:

guacamole eða lárperu sneiðar
sýrður rjómi
salsa
íslenskt salat
gúrkustrimlar

  

Kjúklingavefja

Steikið:
1 rauðlaukur, laukur eða blaðlaukur (val)

1 paprika

2-3 kjúklinglingabringur

Kryddin:
2 msk kjúklingakrydd

2 msk sterkt paprikukrydd

ólífuolía (til að steikja upp úr)

Hvað þurfið þið annað:
vefjur
salsa
guacamole (má sleppa en mjög gott)
sýrður rjómi
rifinn mozzarella eða heill skorinn í sneiðar eða tættur niður
íslenskt salat

Skolið paprikuna og skerið smátt sem og laukinn. Steikið þar til mjúkt við meðalhita af ólífuolíu og fullt af kryddi. Takið af pönnunni og setjið í skál. Skerið kjúklinginn á sérstöku kjúklingabretti (ekki trébretti). Steikið hann næst í ólífuolíu og fullt af kryddi á meðalhita. Þegar bitarnir hafa lokast er gott að lækka hitann í um það bil 2-3, setja lokið á og bíða í um 3-4 mínútur á meðan hann eldast í gegn. Á meðan þið bíðið, getið þið tekið meðlætið til. Setjið kjúklinginn eldaðan í skálina með steikta grænmetinu og berið fram með öllu hinu meðlætinu.

  

Grilluð súrdeigsbrauðsneið með lárperu, pestó og mozzarella

1-2 Súrdeigsbrauðsneiðar

Grænt pestó

Mozzarella Lárpera (avókadó)

Tómatar

Grillið eða ristið súrdeigsbrauðsneið. Smyrjið svo með grænu pestói og setjið lárperusneiðar ofan á, mozzarellasneiðar og tómatasneiðar og berið fram. Gott að skvetta ögn af ólífuolíu yfir í lokin og krydda með salti og pipar.

Aukaupplýsingar:

*Geymið endilega súrdeigsbrauð í frysti svo engar sneiðar fari til spillis

*Geymið afganginn af mozzarellukúlunni í hreinni krukku með loki en setjið smá ólífuolíu yfir hana og sjávarsalt. Ólífuolían lokar fyrir súrefni en súrefnið skemmir mat (bakteríur í andrúmsloftinu) og sjávarsaltið sótthreinsar.

  

Salatdressingar

Möndludressing:

2 tsk möndlumauk (mér finnst dökka frá MONKI best)

½- dl ólífuolía

Ögn af sjávarsalti

Blanda vel saman í glas/krukku.

Hunangs- og sinnepsdressing:

½ dl hunang (akasíu til dæmis)

½ dl sinnep

½ dl kaldpressuð ólífuolía

1 tsk sjávarsalt

2-3 tsk chili mauk (t.d. sambal oelek) EÐA 1 hakkaður rauður chili EÐA 1-2 pressuð hvítlauksrif

1 límóna (lime), safinn

Salatið sjálft:
Íslenskt salat
Ferskur mangó (ef til – má sleppa)
Trönuber (Mikilvæg finnst mér, ef maður er ekki með mangó í salatinu)
Hampfræ (ljúffeng, prótein og góð fita)
Svo má setja út á salatið afganga af fiski/kjöti frá því deginum áður.

  

Hindberja- og mangóþeytingur

Þessi er í uppáhaldi.

1 1/2 dl frosinn mangó

1 dl frosin hindber

3 döðlur
(skornar í bita) EÐA 2 döðlur og 10 dropar vanillustevía

2 dl möndlumjólk
(eða upp að innihaldinu í blandaranum um það bil).

Blanda vel í blandara. Bætið við vatni eða meiri möndlumjólk ef ykkur finnst þurfa.

*Þið megið nota 1 þroskaðan banana í staðinn fyrir döðlurnar.

  

Guacamole

2  þroskaðar lárperur
(avókadó)

1 lime eða sítróna
(safinn)

salt og pipar

cayenne á hnífsoddi

1/3 tsk hvítlauksduft eða 1 pressað hvítlauksrif

1/2-1 dl smátt skorinn rauðlaukur

Nokkrir kokteiltómatar skornir í tvennt (má sleppa)

Ferskur kóríander saxaður, magn eftir smekk (má sleppa).

Þvoið lárperurnar og skerið í tvennt. Kreistið út steininn. Skafið aldinkjötið út með skeið og setjið á disk. Kreistið sítrónu- eða límónusafa yfir og stappið saman.

Bætið hinu öllu við og berið fram.